Áslandsskóli hefur hlotið BREEAM In-Use vottun með einkunnina „Very Good“. BREEAM In-Use er umhverfisvottun fyrir eignir í rekstri sem stuðlar að sjálfbærni, orkusparnaði og umhverfisvænum rekstri. BREEAM vottunarferlið er eitt það víðtækasta á heimsvísu sem staðfestir að byggingar uppfylli strangar kröfur um sjálfbærni. Þegar fasteign er vottuð eru ýmsir þættir rekstrar metnir, sem gefur fyrirtækinu yfirsýn yfir mögulegar umbætur og aðgerðir sem auka virði gagnvart starfseminni, umhverfinu og rekstrinum. Slíkar aðgerðir leiða m.a. til lægri rekstrarkostnaðar í formi minni orkunotkunar og lægra kolefnisfótspors. Vottunin staðfestir að eigandi fasteignarinnar hefur sjálfbærni að leiðarljósi og er staðráðinn í að stuðla að bættri samfélagsábyrgð. Aukin sjálfbærni byggingarinnar eykur þannig bæði hagsæld og rekstrarlegan ávinning. Hannes húsvörður Áslandsskóla tók á móti köku í tilefni af umhverfisvottuninni.