Hagnýtar upplýsingar

Foreldrar
 • 1. bekkur
  • 105 – Óðinsheimar. Kennari: Hrefna Sif Heiðarsdóttir.
  • 106 – Þórsheimar. Kennari: Lilja Dögg Gylfadóttir.
 • 2. bekkur
  • 103 – Klettaheimar. Kennari: Hjördís Ýr Ólafsdóttir.
  • 104. – Fjallheimar. Kennari: Júnía Sigmundsdóttir.
 • 3. bekkur
  • 204 – Hnjúkaheimar. Kennari: Heiðrún Jóhannsdóttir.
  • 205 – Tindaheimar. Kennari: Sylvía Pétursdóttir.
 • 4. bekkur
  • 203 – Undraheimar. Kennari: Andrea Helga Sigurðardóttir.
  • 202 – Töfraheimar. Kennari: Halla Sigurgeirsdóttir.
 • 5. bekkur
  • 212 – Freyjuheimar. Kennari: Guðlaug Elísa Einarsdóttir.
  • 211 – Ásheimar. Kennari: Herborg Friðriksdóttir.
  • 210 – Ægisheimar. Kennari: Heiðrún Hafsteinsdóttir
 • 6. bekkur
  • 221 – Goðaheimar. Kennari: Bríet Ósk Arnaldsdóttir.
  • 223 – Hetjuheimar. Kennari: Steinunn Jenný Skúladóttir.
 • 7. bekkur
  • 215 – Garpheimar. Kennari: Brynja Björg Bragadóttir.
  • 216 – Grettisheimar. Kennari: Elín Þórarinsdóttir.
  • 214 – Jötunheimar. Kennari: Linda Ösp Grétarsdóttir
 • 8. bekkur
  • 110 – Fálkaheimar. Kennari: Anna Sigríður Hilmarsdóttir.
  • 114 – Flókaheimar. Kennari: Hjördís Hrund Reynisdóttir.
  • 213 – Hrafnsheimar. Kennari: Helena Sverrisdóttir.
 • 9. bekkur
  • 113 – Tunglheimar. Kennari: Arna María Geirsdóttir.
  • 111 – Stjörnuheimar. Kennari: Einar Þór Jóhannsson.
  • 112 – Skýjaheimar. Kennari: Rósa Lyng Svavarsdóttir.
 • 10. bekkur
  • 115 – Álfaheimar. Kennari: Guðrún Benediktsdóttir.
  • 209 – Hulduheimar. Kennari: Einar Bjarnason.

Nemendur 1.–7. bekkja fara út í öllum frímínútum, en nemendur elstu deildar mega vera innandyra.

Ef nemendur yngri deilda þurfa af einhverjum ástæðum að vera inni í frímínútum þurfa þeir að hafa með sér beiðni að heiman til umsjónarkennara, þar sem ástæða óskar um inniveru er tilgreind. Miðað er við að nemandi sé ekki inni í meira en einn dag eftir veikindi.

Gæslu í frímínútum sinna skólaliðar og kennarar ýmist úti eða inni. Ef veður hamlar útivist eru nemendur innandyra undir umsjón kennara og skólaliða.

Stefna Áslandsskóla er sú að venja nemendur á að skila heimavinnu samviskusamlega allt frá upphafi skólagöngu.  Heimanám er þroskandi og hvetur nemandann til ábyrgðar á námi sínu. Heimanám miðast við vinnu á virkum dögum og vikuáætlun sem finna má í Mentor. Mikilvægt er að nemendur skili heimaverkefnum á tilsettum tíma og að vinnubrögð séu til sóma. Nemendur fá endurgjöf eða einkunnir fyrir heimanámið.

Það er nauðsynlegt að foreldrar styðji og taki þátt í menntun barna sinna. Stuðningur getur birst á ýmsan hátt, eins og að foreldrar sjái til þess að börn þeirra fái næði til læra heima, nauðsynlega hvíld, hollt fæði og mæti stundvíslega í skólann með þau gögn sem til er ætlast.

Í gegnum heimanámið gefst foreldrum tækifæri til að fylgjast með námsefninu sem börnin vinna með í skólanum og námsframvindu barna sinna. Með því eru auknir möguleikar á að bæta árangur barnanna í námi.

Markmið heimanáms

 • Ljúka verkefni sem byrjað var á í skóla.
 • Rifja upp og byggja ofan á það sem þegar hefur verið kennt í skólanum.
 • Undirbúa vinnu fyrir kennslustund.
 • Kanna skilning.
 • Vinna sjálfstætt og auka sjálfsaga.
 • Nota efni og upplýsingar sem ekki eru til staðar í skólanum, til dæmis viðtöl við foreldra og heimildarlei

Reynt er að taka vel á móti nýjum nemendum þannig að fyrstu kynni þeirra og foreldranna af skólanum veiti þeim öryggi og vellíðan og þeim finnist þeir velkomnir í skólann.

Foreldrar skrá barn sitt í skólann á Mínum síðum á vef Hafnarfjarðar. Ef nemandi er að koma úr öðru sveitarfélagi, eða erlendis frá, þarf að skrá barnið á skrifstofu skólans á þar til gerðum eyðublöðum.

 • Móttaka 1. bekkjar. Nemendur í 1. bekk mæta á skólasetningu. Daginn eftir mæta þeir ásamt forsjáraðilum í viðtal til umsjónarkennara. Næsta dag hefst kennsla samkvæmt stundaskrá.
 • Nýr nemandi við upphaf skólaárs í 2. – 10. bekk. Þegar nemandi er skráður nýr í skólann raðar aðstoðarskólastjóri viðkomandi í bekk og kemur upplýsingum til umsjónarkennara og deildarstjóra.
 • Nýr nemandi á miðjum vetri. Þegar nemandi er skráður nýr í skólann raðar aðstoðarskólastjóri viðkomandi í bekk og kemur upplýsingum til umsjónarkennara og deildarstjóra. Áður en nemandinn byrjar í skólanum boðar umsjónarkennari, í samráði við deildarstjóra, hann ásamt forsjáraðilum til viðtals. Gott er að nemandi taki með sér kennslubækur og gögn ásamt vitnisburði frá síðasta skóla.

Í Áslandsskóla er starfrækt framleiðslueldhús og er boðið uppá þrenns konar áskriftir. Foreldrar skrá sig inná mataráskrift til að skrá börnin í viðeigandi áskriftir. Ef nemandi ætlar að hætta í mat þarf forsjáraðili að tilkynna um það með minnst tveggja vikna fyrirvara.

Nemendur fá stuttan tíma fyrir morgunhressingu (eingöngu drykkur, ávöxtur eða grænmeti) sem þeir koma með að heiman. Ekki er leyfilegt að koma með sætindi, kökur og gos í skólann.

 • Hádegismatur, alla daga fyrir alla nemendur.
 • Ávaxtaáskrift, alla daga fyrir nemendur í 1.–10. bekk.
 • Síðdegishressing er í boði fyrir 5.–10. bekk og er hún afgreidd frá kl. 13:20 -13:30. Nemendur sækja síðdegishressingu í matarlúgu.

Nemendur fara í hádegismat á eftirtöldum tímum:

 • 1. bekkur: kl. 11:00
 • 2.–5. bekkur: kl. 11:10
 • 6.–7. bekkur: kl. 11:35
 • 7.–10 bekkur: kl. 11:50 – 12:30

Hádegismatur sem keyptur er í mataráskrift er snæddur í matsal skólans. Þeir nemendur sem koma með nesti að heiman snæða það á efri hæð.

Ef forsjáraðilar nemenda í unglingadeild óska eftir því að nemendur komi heim í hádegismat þurfa þeir að skrifa undir formlegt leyfi á þar til gert eyðublað og skila til umsjónarkennara.

Umsjónarmaður mötuneytis er Sigþór Marteinsson, matreiðslumaður. Að auki aðstoða aðrir starfsmenn við framreiðslu og annað.

Systkinaafsláttur af mataráskrift

Ef þú átt 2 eða fleiri börn í grunnskóla færðu 25% afslátt af mataráskrift fyrir annað systkinið og 100% afslátt frá og með því þriðja. Systkini verða að vera með sama lögheimili og fjölskyldunúmer í Þjóðskrá.

Ef þú uppfyllir þessar reglur þarf ekki að sækja um sérstaklega, annars þarf að sækja um á Mínum síðum Hafnarfjarðarbæjar. Sækja þarf um fyrir 20. mánaðar til að fá afslátt fyrir mánuðinn eftir. Afslátturinn er ekki afturvirkur.

Áslandsskóli notar náms- og upplýsingakerfið Mentor þar sem nemendur geta séð stundatöfluna sína, fylgst með ástundun og námsframvindu. Foreldrar og nemendur hafa aðgang að kerfinu með kennitölu og lykilorði. Foreldrar hafa sama aðgang og nemendur auk þess að geta fylgst með skráningum í dagbók nemandans.

Foreldrar geta haft samband með tölvupósti við foreldra barna í bekk barnsins síns og kennara skólans í gegnum Mentor, tilkynnt veikindi og leyfi sem eru 2 dagar eða styttri, bókað viðtöl við kennara og fleira.

Nemendur hittast í sal skólans í morgunstund. Hver deild kemur oftast saman vikulega og allir nemendur skólans hittast reglulega yfir veturinn á sameiginlegri morgunstund. Þá eru meðal annars veittar viðurkenningar fyrir jákvæða hegðun, rætt um málefni líðandi stundar og sýnd atriði frá öllum deildum.

Einn heimur (bekkur) hefur umsjón með morgunstund hverju sinni. Morgunstund hefst með því að kveikt er á kertum fyrir hornstoðir skólans, farið er með skólaheitið og lýkur með skólasöng Áslandsskóla. Í morgunstundum fá nemendur, starfsfólk og foreldrar tækifæri til að hittast, sýna og sjá verk sem unnin eru. Morgunstundir eru góður vettvangur til að læra að bera virðingu fyrir öðrum, hlusta og koma fram. Forsjáraðilar eru alltaf velkomnir á morgunstund.

Umsjónarkennari ber ábyrgð á morgunstund síns bekkjar og skipuleggur hana í samvinnu við nemendur. Gætt er að því að allir nemendur gegni hlutverki á morgunstund. Innihald morgunstundar á að vera í tengslum við dygð mánaðarins og rifja skal upp að minnsta kosti eina SMT-reglu. Morgunstundir eru alltaf skemmtilegar en tilgangur þeirra er að vera með vandaðan og vel undirbúinn flutning á efni sem tengist dygðunum. Atriði í morgunstund geta verið margvísleg, til dæmis leikrit, söngur, sögulestur, ljóðalestur, dans, kvikmynd, skyggnusýning, kynning á vinnu nemenda og fleira.

Nemendur sem hafa búið í Svíþjóð eða Noregi áður en dönskukennsla hefst í skólanum eiga rétt á að læra norsku eða sænsku í stað dönskunnar hafi þeir til þess nægjanlega hæfni frá 7. bekk (jafnvel þótt dönskunámið byrji fyrr í skólanum). Foreldrar þurfa að sækja um undanþágu frá dönsku með tölvupósti til skólastjórnenda.

Námið er staðnám fyrir nemendur í 7.–8. bekk eftir að hefðbundinni kennslu lýkur. Kennslustaðir eru breytilegir eftir árum og geta verið utan Hafnarfjarðar. Námið í 9.–10. bekk er fjarnám.

Pólska er kennd sem móðurmál og miðað er við pólska námsskrá fyrir nemendur sem læra pólsku erlendis. Nauðsynleg lágmarkskunnátta er að nemendur geti talað pólsku og hafi nægan orðaforða til að taka þátt í kennslu. Nánari upplýsingar um námið má finna á vef Tungumálaversins.

Námsmat skólans byggir á símati, prófum, könnunum og öðrum verkefnum. Megintilgangur námsmats er að örva nemendur, aðstoða þá við námið, kenna þeim að meta eigin frammistöðu og mæla sig við sett markmið. Námsmat á að vera leiðbeinandi, uppörvandi og uppbyggjandi.

Birting á námsmati

Nemendur fá vitnisburð og almenna umsögn að vori. Námsmat er gefið í öllum greinum í 1.–10. bekk. Námsmat er gefið í táknum í 1.–4. bekk og í bókstöfum í 5.–10.bekk. Lestrareinkunn er gefin samkvæmt einkunnarskala í lestri og fjöldi orða er einnig gefinn upp.

List- og verkgreinakennarar gefa einkunn og umsögn og skila af sér 2 vikum eftir að lotunni lýkur. Einkunn og umsögn fer líka í vitnisburð. Þetta á einnig við um íþróttir og sund.

Yfir veturinn er birting á námsmati meðal annars í verkefnabókum og námsmatsmöppum á Mentor, undir námsmati. Verkefnabók er með einkunnir úr könnunum eða kaflaprófum og þar er einnig rúm fyrir umsagnir. Kennarar opna fyrir aðgang nemenda og foreldra jafnóðum og þeir færa inn mat á námi nemenda.

Í námsmatsmöppum má finna námsmatið sem fram fer samkvæmt skipulagi viðkomandi kennara, eins og prófum, verkefnum, sýnishornum af vinnu nemenda, skýrslum og matsblöðum.

1.–4. bekkur

Símat og lokamat eru gefin eftir kvarðanum:

 • Framúrskarandi
 • Hæfni náð
 • Á góðri leið
 • Þarfnast þjálfunar
 • Hæfni ekki náð.

Ef nemandi fær hæfni ekki náð er skráð umsögn með því hæfniviðmiði sem skýrir af hverju nemandi náði ekki tilteknu hæfniviðmiði.

5.–7. bekkur

Í símati er námsmat gefið eftir kvarðanum:

 • Framúrskarandi
 • Hæfni náð
 • Á góðri leið
 • Þarfnast þjálfunar
 • Hæfni ekki náð.

Nemendur fá svo bókstaf sem lokaeinkunn: A, B+, B, C+, C og D.

Ef nemandi fær hæfni ekki náð eða D er skráð umsögn með því hæfniviðmiði sem skýrir af hverju nemandi náði ekki tilteknu hæfniviðmiði.

8.–10. bekkur

Námsmat er gefið eftir kvarðanum A, B+, B, C+, C og D.

Ef nemandi fær D er skráð umsögn með því hæfniviðmiði sem skýrir af hverju.

Hægt er að meta sama hæfniviðmið oftar en einu sinni en það nýjasta birtist alltaf.  Kennari metur síðan hver lokaeinkunnin er.

Forföll nemenda þegar námsmat fer fram

Í Áslandsskóla er símat sem byggist á mörgum þáttum. Verði nemandi forfallaður einu sinni þegar námsmat fer fram ætti það ekki að koma að sök. Aftur á móti getur það haft áhrif á heildareinkunn ef þessum skiptum fjölgar. Því er mikilvægt að kennari fylgist vel með og meti hvort ástæða sé til að viðkomandi vinni upp það sem hann hefur misst úr.

Próftaka í unglingadeild

Þegar nemandi er fjarverandi þegar próf er lagt fyrir tekur hann prófið í næstu kennslustund í faginu. Ef nemandi tekur ekki prófið þegar hann mætir í næstu kennslustund í faginu fær hann 0 í einkunn.

Stjörnumerkt próf

Nemendur sem eru með námsfrávik og taka einstaklingsmiðuð próf fá stjörnumerkta einkunn í námsmati.

Nemendur í 8.–10. bekk hafa kost á að fá nemendaskáp frá skólabyrjun til skólaloka. Nemendur geta óskað eftir að fá lása en einnig er í boði að koma með eigin lás. Nemendur bera fulla ábyrgð á því að læsa skápnum sínum og passa upp á að hafa þar dót sem ekki á að geyma á göngum skólans. Gerist nemandi brotlegur varðandi notkun og umgengni um nemendaskáp gæti hann átt á hættu að missa skápinn sinn.

Oft safnast töluvert af óskilafatnaði á göngum skólans. Ef fötin eru merkt komast þau strax til skila og því mikilvægt að merkja föt barnanna. Skólaliðar leggja sig fram um að koma óskilafatnaði og töskum í réttar hendur.

Óskilamunir eru teknir fram og eru sýnilegir á viðtalsdögum þegar búist er við foreldrum í skólann. Foreldrar geta líka komið við í skólanum hvenær sem er ef þeir sakna einhvers.

Fatnaður sem er ósóttur eftir lok hvers skólaárs er gefinn til Rauða krossins.

Nemendur í grunnskólum í Hafnarfirði fá ókeypis stílabækur, skriffæri, möppur og önnur ritföng sem þeir þurfa á að halda í daglegu skólastarfi. Námsbækur eru einnig ókeypis eins og alltaf hefur verið. Ætlast er til að ritföng verði eftir í skólanum og að nemendur geti unnið heimanám með ritföngum sem eru til á heimilinu.

Foreldrar þurfa aðeins að sjá börnum sínum fyrir skólatösku, sund- og íþróttafatnaði og skriffærum til notkunar heima.

Markmiðið er að draga úr kostnaði foreldra við nám barna sinna, tryggja jafnræði, nýta fjármuni betur og draga úr sóun.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sendir út tilkynningar um veður þegar á þarf að halda, í samráði við lögreglu og skólayfirvöld.

Mikilvægt er að foreldrar og forsjáraðilar fylgist vel með fréttum af veðri, veðurspám og öðrum tilmælum frá yfirvöldum sem gætu haft áhrif á skólastarf barna og bregðist við í samræmi við aðstæður hverju sinni.

Þegar kennsla einstakra námsgreina er utan göngufæris, til dæmis í íþróttahús eða sundlaugar, er akstur þangað á vegum skólans. Nemendur í Áslandsskóla fara í íþróttatíma á Ásvelli, sundtíma í Ásvallalaug og Suðurbæjarlaug og er því ekið þangað í skólabíl.

Í skólaakstri til og frá kennslustöðum gilda skólareglur. Skólaakstursbílar uppfylla ströngustu öryggiskröfur en það er alltaf nemenda að bera ábyrgð á því að fylgja öryggisreglum í akstri, eins og að spenna öryggisbelti.

Starfsmaður skólans fylgir nemendum í 1.–4. bekk í skólabílnum á leið til og frá íþrótta- og sundstöðum.

Í Áslandsskóla er skólafatnaður fyrir nemendur í 1. – 4. bekk sem samanstendur af buxum, rauðum og bláum bolum og flíspeysum frá Henson. Skólafatnaður er í boði fyrir 5.–7. bekk sem samanstendur af rauðum og bláum renndum hettupeysum, einnig eru til svartar buxur í takmörkuðu upplagi.

Mátun og sala skólafatnaðar fer fram á skólasetningardaginn. Föt eru aldrei afhent nema búið sé að greiða fyrir þau. Skólafatanefnd, sem samanstendur af 3 fulltrúum frá foreldrum og 2 fulltrúum frá skólanum, setur saman skólafatnað fyrir ár hvert. Skólinn sér um lagerstöðu, pantanir og sölu á skólafatnaði

Pöntunarblað fyrir skólafatnað:

Uppi í fjalli, yfir Firði

skólinn er okkur mikils virði.

Þar lærum við að lesa og lita

og líka það sem við þurfum að vita.

 

Vakna að morgni, í skólann skunda

Þó gott sé undir sæng að blunda

Í skólanum finnum glens og gaman

gott er vera ánægð saman.

 

Viðlag:

Samvinna, ábyrgð, tillitssemi og traust

Í Áslandsskóla við erum kát og hraust

Samvinna, ábyrgð, tillitssemi og traust

Í Áslandsskóla gæti verið endalaust

 

Við ábyrgð sýnum og tillitssemi

þannig er ég góður nemi.

Treystum hvort öðru og vinnum saman

í Áslandsskóla er alltaf gaman.

 

Viðlag:

Samvinna, ábyrgð, tillitssemi og traust

Í Áslandsskóla við erum kát og hraust

Samvinna, ábyrgð, tillitssemi og traust

Í Áslandsskóla gæti verið endalaust

 

Lag: Haraldur Freyr Gíslason

Texti: Leifur Sigfinnur Garðarsson

Í Áslandsskóla fá allir nemendur í 5.—10. bekk spjaldtölvu til afnota.

Almennt

 • Spjaldið er námstæki og á fyrst og fremst að nota það sem slíkt.
 • Nemendur eiga að ganga vel um spjaldið og hafa það alltaf í hulstri.
 • Nemendur bera ábyrgð á að koma daglega með spjaldið hlaðið í skólann.
 • Ef spjaldið er meðferðis í íþróttum og sundi á það að vera á öruggum stað á meðan.

Kennslurými

 • Kennari stýrir kennslustundum og ákveður hvenær spjöld eru notuð.
 • Þegar spjaldið er ekki í notkun á að geyma það lokað á horni kennsluborðsins, eplið upp, eða ofan í tösku.
 • Spjaldið á að vera á hljóðlausri stillingu í kennslustundum og nota á heyrnartól við hlustun.
 • Slökkt á að vera á tilkynningum frá öppum sem tengjast ekki kennslu.
 • Myndir og myndbönd má einungis taka með leyfi kennara eða starfsfólks.

Frímínútur og matartími

 • Græn svæði. Leyfilegt að vera í spjöldum.
 • Gul svæði. Stundum leyfilegt að vera í spjöldum.
 • Rauð svæði. Ekki leyfilegt að vera í spjöldum.

Í boði er fjölbreytt úrval valmöguleika fyrir nemendur í 8.–10. bekk. Sumar valgreinar eru sameiginlegar fyrir 8. – 10. bekk, aðrar fyrir 9. og 10. bekk og nokkrar valgreinar eru einungis fyrir 10. bekk. Valgreinar eru kynntar á vorin og nemendur velja fög áður en skóla lýkur fyrir sumarið.

Valgreinar eru kenndar hálft ár í senn, 1 til 2 kennslustundir í einu nema annað sé tekið fram í áfangalýsingu. Valgreinar eru ekki aukagreinar heldur eru þær jafn mikilvægar og kjarnagreinarnar og kröfur um ástundun og árangur þær sömu.

Val er bindandi fyrir komandi skólaár og því er mikilvægt að vanda valið. Ef ekki er nóg þátttaka í einstaka valgreinum geta þær fallið niður.

Metið val

Nemendur geta fengið metið nám utan skólans sem 2 kennslustundir á viku í staðinn fyrir valgrein. Ef nemandi stundar tvær íþróttagreinar eða nám utan skóla má fá 4 kennslustundir metnar. 

Dæmi:

 • Tónlistarskóli
 • Myndlistarskóli.
 • Skákskóli.
 • Reiðskóli.
 • Tungumálaskóli.
 • Dansskóli.
 • Skipulagt íþróttastarf.

Til að staðfesta þátttöku í utanskólavali þarf nemandi að skila sérstöku eyðublaði sem skólinn leggur til með undirskrift foreldris. Nemendur og foreldrar bera fulla ábyrgð á þessum skilum til að starfið fáist metið.

Veikindi

Foreldrar þurfa að tilkynna veikindi gegnum Mentor eða á skrifstofu skólans í síma 585 4600 fyrir 8:30. Ef það er ekki gert er litið svo á að um óheimila fjarvist sé að ræða. Standi veikindi yfir í nokkra daga á að tilkynna þau fyrir hvern dag.

Ef nemandi á að vera inni í frímínútum þá þurfa foreldrar að óska eftir því skriflega til umsjónarkennara. Innivera miðast við 2 daga eftir veikindi. Nemandi sem á að vera inni í frímínútum bíður fyrir framan skrifstofu.

Leyfi

Leyfi í 2 daga eða minna er hægt að tilkynna í Mentor, með tölvupósti eða hringja í skólann í síma 585 4600

Leyfi fyrir meira en 2 daga þarf að tilkynna sérstaklega á vefsíðu skólans. Skólinn gefur ekki út sérstakt heimanám eða sérverkefni til nemenda í leyfum né gerir tilfærslur á námi. Allt nám er á ábyrgð forsjáraðila meðan á leyfi stendur. 

Stafrænar öryggismyndavélar eru utanhúss í skólanum og við suma innganga. Markmiðið er að hafa rafræna vöktun á skólabyggingunni og skólalóðinni í öryggisskyni og til varnar því að eigur séu skemmdar eða þeim stolið.

Upptökur eru einungis skoðaðar ef upp koma atvik varðandi eignavörslu eða öryggi einstaklinga, eins og þjófnaður, skemmdarverk eða slys. Heimild til skoðunar er aðgangsstýrð en myndefni er vistað að hámarki í 90 daga og eytt að þeim tíma loknum.

Vöktunin er útfærð í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Merkingar með viðvörunum um rafræna vöktun eru uppsettar á vöktuðu svæðunum.