Göngum í skólann er farið af stað í Áslandsskóla og stendur til 4. október. Því lýkur formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 2. október. Það á sér erlenda fyrirmynd, www.iwalktoschool.org. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni sína til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni; ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla, hvetja til aukinnar hreyfingar og fræða börn um ávinning reglulegrar hreyfingar. Hvatning til að lifa heilbrigðum lífsstíl Með árlega átakinu Göngum í skólann er ætlunin að hvetja til heilbrigðs lífsstíls fyrir alla fjölskylduna en hreyfing vinnur meðal annars gegn lífsstílstengdum sjúkdómum, stuðlar að streitulosun og betri sjálfsmynd. Einnig er markmiðið að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og kenna reglur um öryggi á göngu og á hjóli. Þar að auki er markmiðið að draga úr umferð við skóla og stuðla að betra og hreinna lofti ásamt öruggari og friðsælli götum og hverfi. Um leið er verið að stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál: Hversu ,,gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf.