Áherslur í námi og kennslu

Nám og kennsla

Í Áslandsskóla er nám einstaklingsmiðað þannig að hver nemandi fær námsefni við sitt hæfi og þrói þannig og þroski hæfileika sína með markvissum hætti. Í skólanum er lögð áhersla á vellíðan nemenda og góðan námsárangur. 

Lífsleikni

Lífsleikninám er stór þáttur í skólastarfi Áslandsskóla sem byggir á 4 hornstoðum skólans. Mikilvægt er að hafa í huga að allar námsgreinar og skólastarfið í heild fela í sér lífsleikni. Markmið lífsleiknináms er að nemendur efli með sér sjálfsþekkingu, jákvæð lífsviðhorf, áhuga og hæfileika til að njóta sín í námi og starfi. Nemendur fá tækifæri til þess að velja leiðir að markmiðum og er lögð áhersla á vinnuferlið frekar en lausnina sjálfa.

Erlend tungumál

Hnattrænn skilningur spilar stærra og stærra hlutverk í nútímasamfélagi. Kennsla í erlendum tungumálum er þar veigamikið atriði. Nemendur Áslandsskóla stunda nám í ensku frá 3. bekk og nám í dönsku hefst í 5. bekk. Skólinn hefur einnig tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi við erlenda skóla (Erasmus+).

List og verkgreinar

List og verkgreinum er gert hátt undir höfði og eru sérgreinakennarar í öllum greinum. Kennslan er eftir svokölluðu lotukerfi. Nemendur stunda nám í ákveðinni list- eða verkgrein í allt að 6 kennslustundir í viku yfir ákveðið tímabil. Að því loknu færast þeir í aðra grein og ný lota hefst.

Markmið kennslu í Áslandsskóla

  • Að skólinn marki sér sérstöðu varðandi góðan námsárangur, vönduð vinnubrögð og almenna vellíðan nemenda.
  • Að efla alhliða þroska bókvits, verkvits og siðvits nemenda.
  • Að skólinn þrói mælikvarða til að meta nám og önnur mikilvæg atriði skólastarfs.
  • Að hafa að leiðarljósi fjölbreytta og sveigjanlega kennsluhætti, samþættingu námsgreina, skapandi og lifandi skólastarf.
  • Að starfs-, náms- og leikumhverfi skólans verði hlýlegt og vistlegt.
  • Að samstarf skóla og heimila sé traust og með jákvæðum hætti.
  • foreldrar verði virkir þátttakendur í skólasamfélaginu og vel upplýstir um starfsemi skólans.
  • Að búa nemendur undir virka þátttöku í samfélaginu og fjölskyldu- og atvinnulífi.
  • Að þróa samstarf og efla samvinnu milli eldra fólks og nemenda skólans.
  • Að nýta hið stórbrotna umhverfi Áslandsskóla til kennslu.

Sjá meira um valgreinar og heimanám í hagnýtum upplýsingum.