Mat á skólastarfi

Skólinn

Innra mat

Innra mat við Áslandsskóla er með ýmsum hætti. Með innra mati í Áslandsskóla er unnið að því að endurskoða og meta skólastarfið jafnt og þétt og gera umbætur í framhaldi af því. Matið þarf að gefa upplýsingar um hverju þurfi að breyta eða bæta og hvaða jákvæðu þáttum að viðhalda til að skólinn nái þeim markmiðum sem hann hefur sett sér í stefnu skólans.

Með innra matinu er leitast við að auðvelda forgangsröðun þeirra verkefna og umbóta sem fyrir liggja og efla þá styrkleika sem fram koma í mati á skólastarfinu. Margir þættir í starfsemi skóla geta talist til mats á skólastarfi og rýnt er í þá reglubundið með skipulögðum hætti.

Skólapúlsinn

Skólapúlsinn er kerfi sem allir grunnskólar í Hafnarfirði styðjast við. Á hverju ári eru rafrænar kannanir lagðar fyrir alla nemendur, foreldra og starfsfólk. Niðurstöður eru kynntar í lok hvers skólaárs og skólinn vinnur í kjölfarið að umbótaverkefnum.

Annað innra mat

Einnig eru ýmis konar aðferðir notaðar við innra mat þar sem ekki er lögð áhersla á að halda utan um og safna gögnum um heldur vinnur hver og einn úr þeim jafn óðum á þann hátt sem honum þykir best.

  • Foreldra- og nemendaviðtöl.
  • Starfsmannasamtöl.
  • Starfshættir og starfsþróun.
  • Innlit í kennslustofur.
  • Stöðumatsfundir með árgöngum og faggreinum.
  • Samantekt á niðurstöðum lestrarskimanna.
  • Starfsmanna-, deilda- og kennarafundir.
  • Fundir í skólaráði.

Ytra mat

Í Hafnarfirði sinnir sveitarfélagið sínum þætti í ytra mati með því að fylgja eftir að grunnskólar sinni sínum þætti í innra mati, leggur til matstækið Skólapúlsinn og vinnur sérstaklega úr þeim upplýsingum með skýrslugjöf eins og við á á hverjum tíma (Skólavogin). Skrifstofa mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar fylgir eftir að skólarnir sinni áætlanagerð og umbótaverkefnum.

Menntamálastofnun hefur umsjón með ytra mati á grunnskólum fyrir hönd mennta- og barnarmálaráðuneytis. Á hverju ári fara 10 grunnskólar á landinu í ytra mat. Þá er starfsemi skólanna metin með hliðsjón af gildandi viðmiðum samkvæmt lögum, reglugerðum og aðalnámskrá. Matið byggir á fyrirliggjandi gögnum um starfsemi skólans, vettvangsheimsóknum matsaðila og viðtölum við nemendur, starfsfólk skóla og foreldra.

Áslandsskóli fór í gegnum úttekt Menntamálastofnunar árið 2018. Í kjölfarið var unnin umbótaáætlun og í framhaldinu unnin framkvæmdaáætlun. Þar voru tilgreindir nokkrir þættir skólinn þurfti að bæta fyrir ákveðinn tíma. Rétt er að geta þess að Áslandsskóli kom ákaflega vel út úr þessari úttekt og fékk mikið hrós fyrir ýmsa þætti starfseminnar, þó vissulega séu alltaf einhver tækifæri til að gera betur.