Skólinn

Í Áslandsskóla eru 2 til 3 bekkir í hverjum árgangi. Í upphafi skólaársins 2023–24 voru um 435 nemendur í skólanum. 

Skólahverfi Áslandsskóla er markast af svæðinu Áslandshverfi austan Ásbrautar og í norðri að Kaldárselsvegi. Börn hafa forgang í þann hverfisskóla þar sem þau eiga lögheimili en hægt er að sækja um skólavist í öðrum skólum. Sjá nánar um innritun í grunnskóla.

Frá Áslandsskóla er stutt að fara út í ósnortna náttúru sem nýtist bæði í leik og í starfi. Í gegnum árin hefur skólinn skapað sér sín sérsvið og má þar nefna einna helst morgunstundir sem eru hluti af lífsleiknikennslu.

4 stoðir náms og menntunar í Áslandsskóla

Allar dygðir

Ein dygð er valin dygð mánaðarins. Margvísleg umræða og vinna fer fram sem tengist viðkomandi dygð. Rækta á góðvild hjá nemendum í hvívetna.

Hnattrænn skilningur 

Fjallað er um heiminn sem eina heild. Unnið er með efni sem tengist öðrum löndum og álfum til að nemendur kynnist ólíkum lífsháttum og lífsgæðum víða í heiminum.

Þjónusta við samfélagið 

Þróun samstarfs við hópa, félög og fyrirtæki. Stutt er við ákveðin málefni, til dæmis frjáls fjárframlög allra í skólasamfélaginu til styrktar mæðrastyrksnefndar í desember í stað pakkaskipta sín á milli.

Að gera allt framúrskarandi vel

Nemendur eru hvattir til að skoða framkomu sína og verklag. Aukinn skilningur nemenda á að það sé eftirsóknarvert að gera hlutina framúrskarandi vel og vera sjálfum sér og öðrum til sóma.  

Skólaheiti

Allir nemendur skólans eiga rétt á því að fá frið til að stunda námið sitt við bestu hugsanlegu aðstæður, innan og utan veggja skólans.

Í skólanum er unnið með sérstakt skólaheiti sem tekur á meginatriðum mannlegra samskipta. Nemendur fara oft með heitið og eru minntir á það þegar tilefni er til. Nemendur læra að öðlast skilning á umburðarlyndi og að geta sett sig í spor annarra. Markmiðið er að þeir beri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum í orðum og framkomu. 

Ég heiti því að koma fram við aðra eins og ég vil að þeir komi fram við mig. Ég skal leggja mig fram um að bera virðingu fyrir mér og öðrum.

Stefna Áslandsskóla

  • Skólinn marki sér sérstöðu varðandi góðan námsárangur, vönduð vinnubrögð og almenna vellíðan nemenda.
  • Leggja áherslu á heilbrigði og velferð nemenda og starfsfólks.
  • Efla alhliða þroska bókvits, verkvits og siðvits nemenda.
  • Skólinn þrói mælikvarða til að meta nám og önnur mikilvæg atriði skólastarfs.
  • Hafa að leiðarljósi fjölbreytta og sveigjanlega kennsluhætti, samþættingu námsgreina, skapandi og lifandi skólastarf.
  • Starfs-, náms- og leikumhverfi skólans verði hlýlegt og vistlegt.
  • Samstarf skóla og heimila sé traust og með jákvæðum hætti.
  • Foreldrar verði virkir þátttakendur í skólasamfélaginu og vel upplýstir um starfsemi skólans.
  • Búa nemendur undir virka þátttöku í samfélaginu og fjölskyldu- og atvinnulífi.
  • Þróa samstarf og efla samvinnu milli eldra fólks og nemenda skólans.
  • Nýta hið stórbrotna umhverfi Áslandsskóla til kennslu.
  • Skipta upp bekkjum eftir 4. og 7. bekk.

Samvinna – Ábyrgð – Tillitsemi – Traust

Í Áslandsskóla vinnur metnaðarfullt starfsfólk sem hefur það að leiðarljósi að vinna framsækið starf. Nemendur eru hvattir til þess að taka ábyrgð á eigin námi og hegðun og unnið er markvisst að því að efla skapandi hugsun og auka víðsýni. Mikil áhersla er lögð á að öllum líði vel og að hver einstaklingur fái að njóta sín á eigin verðleikum. Nemendur eiga að koma vel fram við hvern annan og bera virðingu fyrir umhverfi sínu. Skólinn leitast við að bæta kennslu og skapa gott námsumhverfi fyrir nemendur.

Skólafatnaður

Skólafatnaður hefur verið hluti af skólanum frá upphafi. Nemendur í yngri deild klæðast buxum, bol og flíspeysu. Skólafatnaði er ætlað að efla samkennd hjá nemendum og draga úr samanburði milli nemenda.