Áherslur

Skólinn

Heilsueflandi grunnskóli

Áslandsskóli er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi grunnskóli. Í heilsustefnu skólans er lögð áhersla á heilbrigði og velferð nemenda og starfsfólks. Heilsustefnan er sameiginleg yfirlýsing nemenda, starfsmanna og foreldra við Áslandsskóla. Markmið stefnunnar er að allt daglegt starf skólans stuðli að betri líðan og heilsu allra sem þar starfa.

Hreyfing og öryggi

  • Bætt skólalóð sem ýtir undir hreyfingu nemenda.
  • Kenndir eru leikir sem nemendur geta farið í á skólalóðinni.
  • Nemendur og starfsfólk er hvatt til að nýta sér virkan ferðamáta til og frá skóla.
  • Nemendur og starfsfólk taka þátt í ákveðnum viðburðum varðandi hreyfingu.
  • Skólinn hvetur og stendur fyrir þátttöku starfsfólks í Reykjavíkurmaraþoninu.
  • Nemendur og starfsfólk er hvatt til að stunda íþróttir eða hreyfingu utan skólans.
  • Nemendur fá reglulega fræðslu um mikilvægi hreyfingar.
  • Íþróttir og leikir eru notaðir til að hrista saman nemenda- og starfsmannahópinn.
  • Hvatt til meiri útivistar á haust- og vordögum.

Matarræði og tannheilsa

  • Boðið er upp á hollt fæði í mötuneyti skólans og gott úrval af ávöxtum og grænmeti.
  • Nemendur geta verið í ávaxta- og grænmetisáskrift.
  • Aðgengi að drykkjarvatni er gott.
  • Nemendur koma með hollt nesti í skólann.
  • Nemendur  fá fræðslu um mikilvægi holls og góðs mataræðis.
  • Nemendur fá fræðslu um tannhirðu og áhrif mataræðis á tannheilsu.
  • Veitingar á fundum skólans taka mið af fjölbreytni og hollustu.
  • Draga úr sætindum á kaffistofu starfsfólks.

Geðrækt

  • Einkunnarorð skólans, samvinna, ábyrgð, tillitsemi og traust, eiga að birtast í öllu starfi og samskiptum innan skólans.
  • Unnið er eftir SMT-agastefnu skólans.
  • Nemendur og starfsfólk eiga að sýna hvert öðru virðingu og umburðarlyndi.
  • Tryggt er að nemendur geti leitað til starfsfólks þegar þörf er á.
  • Bekkjarfundir með nemendum þar sem þeir geta rætt um það sem þeim liggur á hjarta.
  • Núvitund er notuð í starfi og leik með nemendum og starfsfólki, þar sem núvitund er talin bæta geðheilsu og draga úr kvíða og streitu.
  • Nemendur og starfsfólk fá reglulega fræðslu um gildi geðræktar og hvernig best sé hlúð að andlegri heilsu og líferni.
  • Starfsfólk getur rætt um starf sitt og líðan við samstarfsfólk og stjórnendur.

Lífsleikni

  • Nemendur á eldri stigum fá reglulega fræðslu um skaðsemi tóbaks og vímugjafa.
  • Nemendur fá reglulega fræðslu um afleiðingar eineltis.
  • Nemendur fá fræðslu um afleiðingar skjánotkunar.
  • Unnið er markvisst að forvörnum sem snúa að einelti og vímugjöfum.
  • Lögð er fyrir könnun um líðan og tengsl milli nemenda að minnsta kosti tvisvar á ári og unnið markvisst með niðurstöðurnar.
  • Allir leggja sitt af mörkum til að efla góðan starfsanda í skólanum.

Eineltisáætlun

Einelti er ekki liðið undir neinum kringumstæðum og er litið á það sem alvarlegt brot á skólareglum. Starfsfólk skólans berst gegn einelti með öllum tiltækum ráðum.

Hvað er einelti?

Einelti er endurtekið ofbeldi sem beinist að einni manneskju í lengri eða skemmri tíma. Einelti felur í sér misbeitingu á valdi með þeim afleiðingum að þolanda líður illa og finnur til varnarleysis. Einelti gerist oftast þar sem enginn sér og getur því farið fram hjá fullorðnum ef enginn segir frá. Einelti gerir ekki mannamun. Allir geta orðið fyrir því og áríðandi er að allir þekki einkenni eineltis.

Áslandsskóli á að vera öruggur vinnustaður fyrir nemendur og starfsfólk þar sem starfið mótast af virðingu og umhyggju. Skólinn hefur skýrar reglur og vinnuferli um hvernig tekið er á einelti. Til þess að árangur náist er nauðsynlegt að góð samvinna sé  á milli allra sem hlut eiga að máli.

Tilkynna einelti

Mikilvægt er að allir þeir sem hafa vitneskju um eineltismál tilkynni það til skólans svo hægt sé að vinna markvisst að því að stöðva eineltið. Æskilegt er að vitneskja um einelti berist fyrst til umsjónarkennara. Einnig er hægt að hafa samband við nemendaverndarráð skólans eða stjórnendur. Eineltismál eru mismunandi og fer vinna hvers máls eftir eðli þess.

Grunur um einelti – vinnuferli

Grunur um einelti

Öll eineltismál, grun eða staðfestingu, skal tilkynna til umsjónarkennara á sérstöku eyðublaði. Umsjónarkennari ber ábyrgð á skráningu og lætur afrit til námsráðgjafa sem heldur utan um allar skráningar. Skráning er liður í að hafa yfirsýn yfir eðli og umfang eineltismála í skólanum.

  1. Umsjónarkennari eða námsráðgjafi vinna í kjölfarið samkvæmt vinnuferli 1.
  2. Ef grunur er staðfestur er unnið samkvæmt vinnuferli 2.
  3. Ef ekki tekst að leysa eineltismál í skólanum er málið sent til Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar til frekari meðferðar.

Hvað geta foreldrar gert þegar barnið þeirra er þolandi?

  • Hlustað vel á barnið.
  • Brugðist við vanda barnsins með skilningi, þolinmæði og umhyggju.
  • Látið barnið finna að það á ekki sök á eineltinu.
  • Haft samband við umsjónarkennara, námsráðgjafa eða stjórnendur skólans.

  Hvað geta foreldrar gert þegar þeirra barn er gerandi?

  • Haft samband við skólann til að setja í gang viðeigandi aðgerðir.
  • Reiði og skammir duga skammt. Árangursríkara er að setjast niður og ræða málin. Skýra þarf út fyrir barninu að það sé ólíðandi að særa aðra, bæði líkamlega og andlega.
  • Gefið skýr skilaboð um að einelti sé alvarlegt mál og barnið eigi að hætta því.
  • Gott er að fá barnið til að setja sig í spor þolenda og ímynda sér hvernig þeim líður því þannig eflum við samkennd barnsins með öðrum.
  • Skoðað eigin hegðun og hegðun annarra í fjölskyldunni.
  • Fylgst vel með hvernig barnið ver frítíma sínum og með hverjum.

Það er mikilvægt að barnið viti að foreldrar og forsjáraðilar séu í sambandi við kennarann og fylgist með framvindu málsins. Mikilvægt er að muna að hrósa barninu ef vel gengur.

Netnotkun

Mikilvægt er að foreldrar fylgist með hvað börnin þeirra aðhafast á netinu. Aukning er í því að nota netið sem tól til þess að leggja í einelti. Með því er einnig verið að rjúfa friðhelgi heimilisins og griðarstað þeirra sem fyrir eineltinu verða.

Einnig eru áhættur samskipta á samfélagsmiðlum. Æ algengara er að fullorðnir einstaklingar reyni að vinna sér traust barna með því að koma sér inn í vinahópa á netinu og finna einstakling sem er viðkvæmur fyrir, byggja upp samband og um leið traust. Það er mikilvægt að foreldrar fylgist með samskiptum barna sinna á samfélagsmiðlum og ræði við börn sín um áhættur sem leynast á netinu.

SMT-skólafærni

Markmið SMT er að skapa jákvæðan skólabrag, tryggja öryggi nemenda og starfsfólks og gera góðan skóla betri. Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun nemenda með því að kenna þeim og þjálfa þá í skólafærni, gefa jákvæðri hegðun gaum og draga úr óæskilegri hegðun.

Fuglar

Hrós í ýmsum myndum er notað sem jákvæð hvatning. Fugl er gefinn fyrir jákvæða hegðun nemandans, til dæmis fyrir að fara eftir skólareglum eða sýna framfarir. Unnið er með fjóra fugla sem mynda skólamerki Áslandsskóla. Þannig getur nemandi fengið rauðan, gulan eða grænan fugl fyrir að sýna jákvæða hegðun.

Stoppmiðar

Stoppmiði er veittur vegna óæskilegrar hegðunar, oft í kjölfar aðvörunar. Allir stoppmiðar eru skráðir í skráningarkerfi Mentor og er unnið með þá eftir ákveðnu agaferli sem flokkað er í þrjú stig brota. Á stoppmiða er skráð hvað gerðist, hvar atvik átti sér stað, hverjar voru mögulegar ástæður og afleiðing óæskilegrar hegðunar.

SMT-teymi

Við skólann starfar SMT-teymi sem sér um utanumhald og áframhaldandi þróun SMT-skólafærni í Áslandsskóla. Í teyminu sitja skólastjórnandi og 5–6 kennarar. Teymið tekur við ábendingum um allt sem viðkemur SMT og fundar mánaðarlega eða oftar ef þörf krefur.

Í tengslum við SMT-teymið starfar SÁTT-ar teymi. Teymið er lausnaleitarteymi en þangað er hægt að vísa erfiðum nemenda- og bekkjamálum sem teymið tekur til skoðunar með það í huga að leysa vanda sem upp er kominn.

PMT- foreldrafærni

SMT- skólafærni stendur fyrir School Management Training og byggir á PMT- foreldrafærni (Parent Management Training). Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar í samvinnu við félagsþjónustuna og heilsugæsluna býður upp á námskeið fyrir foreldra til þess að vinna eftir PMT. PMT-foreldrafærni byggir á kenningu Dr. Gerald Pattersons og er oft kennd við Oregon-fylki í Bandaríkjunum og kallast þar Positive Behavior support (PBS).